2018-2021 Að læra af list -Artist Led Learning in Higher Education

Markmið með Að læra af list (ALL) er að leggja sitt af mörkum til að auka sköpunarhæfni nemenda, kennara og listamanna innan háskólasamfélagsins með því að þróa skapalón að kennsluaðferðum sem byggja á listgreinum. Þessi tilraunakennsla fer fram bæði í verkefnavinnu og verður einnig beinlínis innleidd í núverandi námsefni í þátttökustofnunum og í samstarfi við menningarstofnanir og á sviði rannsókna. Markmiðið er að skapalónið hvetji til þróunar nýstárlegra námsgagna sem byggja á listgreinum og samstarfs meðal þátttakenda. Ætlunin er að þessi námsgögn verði sjálfbær og notuð í æðri menntastofnunum víðs vegar um Evrópu. Æðri menntastofnanir sem styðja listræna nálgun verða opnar fyrir kerfisbundinni viðhorfsbreytingu sem kann að meta gildi fjölbreyttra og skapandi menntunarleiða. Einnig er þess að vænta að listamenn geti þjálfað hæfni sína í að nálgast fjölbreyttar almennar aðstæður út frá listrænu viðhorfi. Áhrifin sem við stefnum að eru fremur í ætt við gæði og varanleika en magnið sjálft. Við ætlum að dreifa sem víðast þróuðu námsefni með aðstoð opins hugbúnaðar og sýndarumhverfis; þannig verður efnið aðgengilegt almenningi til skoðunar og notkunar. Við ætlum einnig að leitast við að tryggja að þátttakendur finni merkingarbæran samhljóm í öllum aðferðum sem verði þeim hvatning til að nýta þennan farveg í skólastarfi.

Þjóðleikhúsið og Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarf um kennsluefni

Barna- og unglingasýningar Þjóðleikhússins munu verða nýttar í kennsluefni sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands mun útbúa í samstarfi við fræðsludeild leikhússins

Þjóðleikhúsið og Menntavísindasvið HÍ hafa tekið höndum saman um gerð kennsluefnis fyrir börn og unglinga. Kennsluefnið mun byggja á barna- og unglingasýningum Þjóðleikhússins sem eru í sýningu hverju sinni og nýtast vel til að auka læsi ungmenna á leiklist og bæta aðgengi þeirra að leikhúsi. Kennsluefnið er hugsað jöfnum höndum fyrir almenna kennara og leiklistarkennara. 

Björn Ingi Hilmarsson frá fræðsludeild Þjóðleikhússins, Jóna Guðrún Jónsdóttir og dr. Rannveig Björk Þorkelsdóttir frá leiklistarkjörsviði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands skrifuðu undir samstarfssamning um þetta spennandi verkefni í vikunni. Þær sýningar sem um ræðir þetta árið eru m.a. Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson, Kafbáturinn eftir Gunnar Eiríksson og Ég get eftir Peter Engkvist.